alt missing

03/01/2025

Blogg

Árið 2024: Ábati tæknilausna, fræðsla og nýsköpun

Á áramótum er hollt að líta í baksýnisspegilinn. Draga lærdóm af áskorunum ársins, fagna sigrum og hnoða svo saman í sterka stefnu fyrir komandi ár.   

Árið hjá Helix var viðburðaríkt, nánar tiltekið héldum við og/eða tókum þátt í 26 viðburðum á árinu. Við fórum í spennandi samstarf við Gangverk og Dala.care ásamt fleiri nýsköpunarfyrirtækjum, vorum með 12 háskólanema í starfsnámi og Helix fagnaði ársafmæli í nóvember síðastliðnum. Með nýju fyrirtæki komu nýjar áherslu og við höfum snúið við öllum steinum, sett okkur skýra stefnu og lagt metnað í að rækta garðinn okkar, mannauðinn.

Ef við stígum upp í þyrluna og lítum yfir liðið ár má greina þrjú megin þemu sem við ætlum að kafa dýpra ofan í hér í þessum pistli:   

  • Aukin rafræn skráning á hjúkrunarheimilum.   

  • Tenging við notendur okkar í gegnum kennslu og fræðslu.   

  • Samstarf við önnur nýsköpunarfyrirtæki.  

Hjúkrunarheimili: Um 700 milljóna króna sparnaður á ári hverju   

Við erum einstaklega þakklát fyrir þær frábæru móttökur sem við höfum fengið á lausnum okkar fyrir hjúkrunarheimilin, Iðunni smáforriti og Lyfjavaka fyrir lyfjaumsýslu. Nú hafa rúmlega 70% hjúkrunarrýma landsins innleitt eða ákveðið að innleiða lausnirnar með góðri raun. Tveir af þeim nemum sem voru hjá okkur í starfsnámi á árinu unnu lokaverkefni tengdum lausnunum. Henný Björk Birgisdóttir meistaranemi við Digital Health í HR rannsakaði áhrif Iðunnar og Lyfjavaka á starfsemi hjúkrunarheimila og Anna Björk Baldvinsdóttir meistaranemi við Hagfræðideild HÍ gerði kostnaðarábatagreiningu við innleiðingu Iðunnar á landsvísu. Niðurstöður verkefnisins um áhrif lausnanna á hjúkrunarheimili sýndi skýrt að þeir hjúkrunarfræðingar sem notuðu Iðunni og Lyfjavaka fundu fyrir auknu öryggi, meiri tíma með íbúum og minna skráningarálagi þrátt fyrir aukna skráningu. Kostnaðarábatagreiningin fyrir Iðunni leiddi í ljós að með Iðunni smáforriti má hagræða verulega í rekstri hjúkrunarheimila.  

Niðurstöður sýndu fram á árlegan ábata upp á 660 milljón krónur ef öll hjúkrunarheimili landsins myndu innleiða lausnina. Þetta litla dæmi sýnir skýrt ávinning þess að fjárfesta í heilbrigðistækni fyrir íslenskt samfélag og hve þörfin fyrir tæknilausnir á hjúkrunarheimilum var orðin mikil.   

Tenging við notendur og fræðsla  

Á árinu lögðum við áherslu á að tengjast notendum Sögu sjúkraskrárkerfis. Saga er viðamikill hugbúnaður og mikilvægur innviður sem samanstendur af 67 einingum, þróaðar og aðlagaðar að íslensku heilbrigðiskerfi. Um það bil 40 fagstéttir vinna í Sögu og það eru sirka 10.000 daglegir notendur að kerfinu. Eftir samtöl við heilbrigðisstarfsfólk fundum við mikla eftirspurn eftir aukinni kennslu á kerfið. Þjónustudeild Helix setti á laggirnar ókeypis örnámskeið með það meginmarkmið að auðvelda fagstéttum heilbrigðiskerfisins vinnu sína, stytta tímann sem fer í skráningar og liðka fyrir í notkun kerfisins. Námskeiðin voru aðlöguð að ólíkum fagstéttum með þeirra þarfir í huga. Óhætt er að segja að námskeiðin hafi slegið í gegn en um 1000 heilbrigðisstarfsmenn hafa sótt þau á þessu fyrsta ári sem þau voru haldin. Við þökkum fyrir góðar undirtektir, það dýrmæta samband sem hefur skapast við notendur Sögu í kjölfarið og hlökkum til að halda þessu verkefni áfram á næsta ári.  

Nýsköpun og spennandi framtíðarlausnir  

Á árinu gerðu Gangverk og Helix með sér samstarfssamning. Við fengum teymi hæfileikaríkra starfsmanna frá Gangverk inn á gólf til okkar og hafist var handa við að þróa lausn sem mun líta dagsins ljós á komandi ári. Helix og Dala.Care hófu einnig samstarf sem felst bæði í endursölu á velferðarlausn Dala.care en líka samþættingu á því kerfi og Smásögu, appi fyrir skráningu í heimahjúkrun. Með þeirri samþættingu munum við ná að auka yfirsýn þeirra sem þiggja velferðar-og heimaþjónustu og þeim sem henni sinna.   

Við héldum áfram spennandi samstarfi við Tiro, en sú lausn gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að færa talað mál í texta í eyðublöðum Sögu. Þá höfum við verið í samstarfi við Careflux sem nota gervigreindarlíkön til að liðka fyrir vinnu heilbrigðisstarfsfólks í gegnum Heilsuveru og Sögu sjúkraskrárkerfið. Nýsköpun í heilbrigðistækni er gríðarlega mikilvæg fyrir styrkingu heilbrigðiskerfisins. Við erum stolt af því að vinna með þessum spennandi fyrirtækjum og hlökkum til að rækta þau sambönd áfram auk nýrra á komandi ári.   

  
Við viljum þakka viðskiptavinum, notendum, samstarfsaðilum og öllum þeim sem hafa snert Helix á árinu fyrir gott samstarf. Það er svo okkar von að innspýting til nýsköpunar á sviði heilbrigðistækni verði enn meiri á komandi ári - tækifærin eru ótal mörg.   

Elfa Markaðsstjóri Helix

Höfundur bloggs

Elfa Ólafsdóttir

Forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Helix

Deildu gleðinni