alt missing

03/09/2024

Blogg

Gervigreind léttir undir í heilbrigðiskerfinu

Steindór Ellertsson er einn af fólkinu á bak við Careflux, heilbrigðistæknifyrirtækis sem hefur það markmið að stórminnka pappírsvinnu heilbrigðisstarfsfólks og þar með létta verulega á verkefnum þeirra. Steindór er menntaður læknir og er í doktorsnámi þar sem hann tvinnar saman tölvunarfræði og læknisfræði við rannsóknir á gervigreind í heilbrigðiskerfinu meðfram störfum sínum sem framkvæmdastjóri hjá Careflux.

Careflux var stofnað af læknum og tölvunarfræðingum með sérmenntun á sviði gervigreindar sem hafa unnið saman að rannsóknum á ýmsum gervigreindarlíkönum innan heilbrigðiskerfisins undanfarin ár, meðal annars með lausnum Helix.

 

Tvinnar saman læknisfræði og tölvunarfræði

„Ég lærði læknisfræði Íslandi en tók megnið af mínu sérnámi í heimilislækningum í Noregi. Ég hef forritað síðan í menntaskóla og tók nokkur námskeið innan tölvunarfræði meðfram  kandídatsárinu eftir að ég kláraði grunnnámið í læknisfræði. Ég hef síðan blandað læknisfræðinni og tölvunarfræðinni saman í doktorsnámi við rannsóknir á gervigreind í heilbrigðiskerfinu. Doktorsverkefni mitt snýst um rannsóknir á mállíkönum og öðrum vélnámslíkönum og hvernig hægt er að nota þau til að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki vinnudaginn, minnka álag og bæta gæði heilbrigðisþjónustu.“

 

Sjálfvirkir ferlar í stað handavinnu

Vörur Careflux eru í grunninn gervigreindarlíkön sem eru þjálfuð til að formynda skjöl og framkvæma ákveðna tímafreka ferla með sjálfvirkum hætti sem heilbrigðisstarfsfólk framkvæmir alla jafna handvirkt. 

„Stór hluti vinnudags heilbrigðisstarfsfólks fer í að leita að upplýsingum í sjúkraskrá, greina þær og taka saman til að koma þeim áfram til sjúklinga. Það þarf að panta rannsóknir, fylla út eyðublöð, vottorð og lyfseðla, og skrifa nótur. Það þarf að veita skjólstæðingum greinargóðar upplýsingar til að þau geti tekið upplýstar ákvarðanir um eigin heilsu. Við þjálfum líkönin þannig að þau starfa sjálfvirkt samhliða vinnuferlum heilbrigðisstarfsfólks og leggja fram tillögur að lausn að því verkefni sem unnið er að,“

Steindór Ellertsson

Framkvæmdastjóri Careflux

„Careflux er einnig með klínísk greiningarlíkön í rannsóknarferli sem gætu minnkað sýklalyfjanotkun, tilvísanir í myndrannsóknir, fækkað óþarfa komum á heilsugæslu og opnað á aukna meðferð í heimahúsum með öruggum hætti.“

Hjálpar til við að svar flæði skilaboða inn á Heilsuveru

„Heilsuvera er gott verkfæri að mörgu leyti en það hefur reynst mikil vinna að eiga við skilaboðin sem berast, að greina innihald þeirra og átta sig á hvaða erindi eiga heima þar og hver ekki,“ segir Steindór. 

Fyrsta vara Careflux notar gervigreind til að flokka skilaboð, formynda svartillögur og rafræn skjöl. Stór hluti vinnu í tengslum við skilaboðin yrði unnin af kerfinu, heilbrigðisstarfsfólk þyrfti því ekki að vinna vinnuna í kringum þau handvirkt eins og gert er í dag. Það þyrfti einungis að lesa yfir, bæta við svör eða skjölum ef þörf er á og svo staðfesta skjölin.

Steindór Ellertsson

Framkvæmdastjóri Careflux

„Við sjáum mörg svipuð tækifæri í vinnuflæði heilbrigðisstarfsfólks þar sem hægt er að nota gervigreind til þess að létta verulega undir í vinnunni.“

Rannsóknir sýna að 2⁄3 af starfsdegi heilbrigðisstarfsfólks fer í pappírs- og skráningarvinnu. Þetta aukaálag hefur stuðlað mikið að kulnun í starfi innan heilbrigðisgeirans. Það ríkir skortur á heilbrigðisstarfsfólki um allan heim og sá skortur mun aukast á komandi árum og áratugum með aukinni fólksfjölgun. Þannig hefur myndast neikvæður spírall þar sem sífellt færra heilbrigðisstarfsfólk sinnir sífellt fleiri sjúklingum.

Þungir kaupferlar og flókið ferli

Að mati Steindórs standa fyrirtæki innan heilbrigðisgeirans frammi fyrir ýmsum áskorunum.

„Að selja vöru innan heilbrigðiskerfisins er ekki einfalt og kaupferlar eru oft þungir. Gögn sem heilbrigðisfyrirtæki meðhöndla eru viðkvæm og því er rík krafa um öryggi tölvukerfa heilbrigðistæknifyrirtækja ásamt því hvernig þau meðhöndla persónugreinanleg gögn. Að endingu snýst heilbrigðiskerfið um fólk og samspil þess við tækni getur verið sérstaklega flókið.

Krafa um rannsóknir og gögn á bak við tækni er einnig einkennandi fyrir heilbrigðiskerfið sem er jákvætt að mínu mati. Oft mætti vera búið að rannsaka tæknilausnir betur áður en þær eru teknar í notkun til þess að tryggja að þær bæti raunverulega vinnuumhverfið, mikilvægt er að hanna lausnir sem passa inn í vinnuflæði heilbrigðisstarfsfólks. 

Það sem að mínu mati mætti betur fara er að skilgreina kaupferla betur ásamt þörfum og vandamálum heilbrigðiskerfisins. Hafandi sagt það þá hafa verið framfarir undanfarin ár með aukinni áherslu ríkisins á nýsköpun og nýtingu hennar innan ríkisstofnana.“

Heilbrigðisstarfsfólk skilur hvaða lausnir geta bætt starfið

„Aukin hugbúnaðargerð í höndum heilbrigðisstarfsfólks er mikilvæg, það hefur skilning á vinnuflæðinu og forsendur til að átta sig á hvers konar tæknilausnir geta bætt það. Að sama skapi mætti auka rannsóknarkröfur á tæknilausnir, jafnvel þó svo að þær séu ekki skilgreindar sem lækningatæki.

Mig langar að hvetja heilbrigðisstarfsfólk sem hefur áhuga á að taka þátt í þróun tæknilausna og gervigreindarlíkana að hafa samband við okkur. Við erum alltaf að leita að fólki í verktakavinnu sem felst í að þjálfa gervigreindarlíkön og það eru mörg spennandi verkefni framundan. Það gefst tækifæri til að taka þátt í að þróa verkfæri sem að geta haft bein áhrif á vinnudaginn, persónulega finnst mér það gríðarlega spennandi. Heimasíðan okkar er www.careflux.ai og hægt að senda okkur póst á hello@careflux.ai ef áhugi er á samstarfi.“