alt missing

11/08/2025

Blogg

Hrafnista: Mæta verkefnum framtíðar með tæknilausnum

Þörf fyrir hjúkrunarrými á eftir að aukast til muna á næstu árum og áratugum til að þjónusta ört vaxandi hóp aldraðra. Gunnur Helgadóttir framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu segir mikilvægt að vinna sér í haginn með því að innleiða tækni sem auðveldar starfið áður en þörf fyrir þjónustu eykst.

Heilbrigðissvið Hrafnistu vinnur þvert á öll átta Hrafnistuheimilin. „Það er mikill vilji til að gera vel á Hrafnistu, vera fremst í flokki og gera sem best fyrir okkar íbúa. Við gerum hvað við getum til að bæta ferla og styðja starfsfólk í sínum störfum, meðal annars með þróun á nýrri þjónustu. Það er mikilvægt að staðna ekki, tækninni fleygir fram og það þarf að skoða hvernig hún getur nýst okkur til að auka öryggi og gæði þjónustu.“

Mikilvægt að vera opin fyrir nýjungum

,,Við erum alltaf að skoða nýjungar sem styðja við starfsfólk og íbúa. Öldruðum mun fjölga hratt á komandi árum með tilheyrandi aukinni þjónustuþörf og með því að nýta tæknina er hægt að vinna sér í haginn til framtíðar.“

Áður en nýjar lausnir eru innleiddar skilgreinum við markmið og væntanlegan árangur. Í framhaldinu setjum við upp tilraunaverkefni. Við verkefnalok er tímaávinningur, öryggi og líðan starfsfólks skoðuð. Við vegum kosti, galla og hvort lausnin nýtist þvert á deildir. Það er takmarkað fjármagn sett í nýjungar svo það þurfa að vera skýr markmið og vænlegur ávinningur. Að mínu mati eru slík tilraunaverkefni mikilvæg til að sannreyna kosti lausnanna.

Gunnur Helgadóttir

Framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu

Valdefling og aukið öryggi

Hrafnista kom að þróun smáforritsins Iðunnar í samstarfi við Helix með það markmið að auðvelda dagleg störf og skráningar og ná betri yfirsýn. Um 80% þeirra sem vinna í beinni þjónustu við heimilisfólk á hjúkrunarheimilum er ófaglært. Þeirra framlag var áður lítt sýnilegt þar sem það var að mestu skráð af öðru heilbrigðismenntuðu starfsfólki í sjúkraskrá. Nú getur þetta starfsfólk skráð sjálft sín verk í Sögu sjúkraskrá í gegnum Iðunni.

„Að verk séu skilgreind og skráð í Iðunni eykur öryggi bæði fyrir íbúa og starfsfólk og auðveldar sjálfstæð vinnubrögð. Auk þess er valdefling fólgin í því að framkvæmd verkefna starfsfólks sé skráð og þar af leiðandi sýnileg.“

Gunnur segir fleiri tækifæri fólgin í aukinni skráningu. „Með Iðunni verður skráning ítarlegri og staðlaðri sem auðveldar úrvinnslu gagna og greiningu á starfinu.“

Innleiðing Lyfjavaka með tilraunaverkefni

„Við tókum Lyfjavakann inn á einni tveimur deildum sem tilraunaverkefni í þrjá mánuði á til að sjá hver ávinningurinn yrði. Það voru gerðar tímamælingar á vinnu hjúkrunarfræðinga við lyfjaumsýslu ásamt tímamælingum á vinnu starfsfólks í aðhlynningu. Það var töluverður ávinningur, yfirsýnin batnaði til muna og það sparaðist tími. Það var áhugavert að sjá að starfsfólkið sem starfaði í aðhlynningu vildi alls ekki fara aftur í gamla verklagið. Það upplifði sig mun öruggara með Lyfjavakanum sem vó þungt í endanlegu mati.“

Hvað ber að hafa í huga við innleiðingu tæknilausna?

„Það voru tveir þættir sem ég hafði ekki hugsað út í áður en að við hófum þessa stafrænu vegferð. Sá fyrri er mikilvægi þess að þráðlaust netsamband sé gott alls staðar því starfsfólk setur upplýsingar inn í lausnina um allt hús. Gott netsamband er ekki endilega sjálfsagt, sérstaklega í eldri byggingum, og þá þarf að bregðast við því. Hinn síðari er eftirfylgnin."

Innleiðing tæknilausna breytir vinnustaðarmenningu og viðhorfi. Það þarf ekki bara að kenna á lausnina heldur fylgja kennslunni eftir og festa notkun hennar í sessi til að tryggja að lausnin nýtist sem best.

Gunnur Helgadóttir

Framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistu

Tækifæri í samvinnu

„Við þurfum að skoða vel hvað hentar Hrafnistu og hverju við höfum ráð á, en ég sé fullt af tækifærum í tækninni og við erum hvergi nærri hætt. Það eru margar góðar hugmyndir og ef við vinnum saman komumst við hraðar áfram sem er mun betra fyrir heildina.

Þetta er mikil vinna að á bakvið svona verkefni og ég er ótrúlega þakklát starfsfólki Hrafnistu fyrir að taka vel í breytingar og hafa lagt sitt af mörkum til að innleiða lausnirnar. Þetta er samhent átak. Til að vel gangi þurfa allir að leggja hönd á plóg og það hafa þau sannarlega gert.“