
14/10/2025
Blogg
Nikulás Hall: Frá forritun með spjöldum til gervigreindar
Nikulas Hall hefur starfað hjá Helix í 15 ár. Nú tekur við annar kafli í lífi hans þegar hann hættir að vinna 73 ára gamall og fer á eftirlaun. Saga hans sem forritari spannar mun lengra tímabil en ferill hans hjá Helix og hann býr yfir viðamikilli reynslu af forritun, hugbúnaðarprófun og kennslu allt frá áttunda áratug síðustu aldar. Nick býr yfir einstakri ró og yfirvegun og færni hans til að leysa erfið mál er framúrskarandi.
Með kassa af forritunarspjöldum í strætó
Ferill Nick í tækniheiminum spannar nokkra áratugi. Hann er menntaður eðlisfræðingur og hóf starfsferill sinn á tímum þegar tölvur voru sjaldgæfar og forritun var unnin með spjöldum og stimplum.
„Ég var til dæmis forritari hjá Orkustofnun árið 1977 og þar var engin tölva,“ segir hann. „Ég þurfti að taka strætó með kassa af forritunarkortum upp í Háskóla Íslands til að lesa þau inn. Það heyrðist alltaf df df df df df df þegar vélin las spjöldin. Þetta var alvöru forritun!“
Nick
Eitt kvöldið kviknaði eldur í Orkustofnun. „Spjöldin skemmdust í eldinum og ég þurfti að afrita þau öll í ritvél og kópera þau orðrétt, sem var ótrúlegt púsluspil!“ Eftir nokkur ár hjá Orkustofnun fluttu þau hjónin til Englands þar sem hann vann hjá hugbúnaðarfyrirtæki á meðan eiginkona hans var í námi. Þar lærði hann verklag sem fylgdi honum hans starfsævi: góð vinnubrögð, kerfisbundin forritun og mikilvægi prófunar. „Þarna lærði ég að skilgreina kerfi, hanna þau og prófa á faglegan hátt. Það fylgdi mér síðan áfram.“
Frumkvöðull í kennslu
Árið 1988 var Nick ráðinn kennslustjóri við Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands (TVÍ), sem var forveri Háskólans í Reykjavík. „Við vorum að byggja upp nýja námsleið í hugbúnaðargerð frá grunni. Þar var áherslan á að þetta væri stutt en verklegt nám. Nemendur unnu dag og nótt að hugbúnaðarverkefnum og það var magnað að sjá hvað hægt er að gera á stuttum tíma þegar hópur vinnur saman.“
Hann segir það hafa verið áhugaverðan tíma í þróun íslenskrar tæknimenntunar.
„Tölvunarfræði sem var kennd annarsstaðar var mun fræðilegri en sú sem við vildum kenna. Okkar áhersla var á að byggja upp færni sem nýttist í atvinnulífinu, ekki bara fræðilega forritun. Að vinna verkefni frá hugmynd til prófunar. Þessi hugsun lifir enn í HR í dag, og ég á smá hlut í því,“ segir hann brosandi.
Frá kennslu í heilbrigðistækni
„Ég hafði svo verið í stundakennslu um tíma milli hruns og 2010 þegar ég sá auglýst starf hjá EMR sem síðar varð Helix. Ég hafði ekki forritað af viti í mörg ár en ég sótti um sem prófari og lagði áherslu á reynslu mína af prófunum frá fyrri árum. Það reyndist góð ákvörðun,“ segir hann. „Ég sá að hér væri gott fólk og áhugaverð verkefni. Ég hef aldrei séð eftir því. Kannski var það líka maturinn hér sem hélt mér svona lengi,“ bætir hann við kíminn.
Fyrstu árin hjá Helix voru lærdómsrík og krefjandi. Saga og Hekla voru í mikilli þróun og á þessum tíma var hröð þróun í íslenskri heilbrigðistækni.
„Þetta var ótrúlega spennandi tími, að sjá hvernig hugbúnaðurinn tengdist beint við heilbrigðisþjónustuna, hvernig rafrænir lyfseðlar, samskipti og skráningar urðu hluti af daglegu starfi heilbrigðisstarfsfólks. Það var eitthvað sérstakt við það að vita að maður vann að kerfi sem hefur bein áhrif á alla landsmenn.“
Nick
Þar sem verkefnin og fólkið mætast
Þegar Nick flutti sig svo yfir í þjónustudeildina fann hann sína hillu.
„Það sem ég hef haft mestan áhuga á er að vera í samskiptum við fólk og að fá að grafa mig ofan í flókin mál þar til lausnin finnst. Það getur tekið tíma en það er það sem gefur starfinu gildi finnst mér.“ Hann segir andann í Helix hafa verið einstakan.
„Það eru ekki bara verkefnin eða tæknin sem gera Helix að góðum vinnustað, heldur fólkið. Andrúmsloftið hér er jákvætt og stresslaust. Það er hjálpsemi hér sem maður finnur ekki alls staðar. Ef maður lendir í vandræðum er alltaf einhver tilbúinn að veita hjálparhönd. Það er traust og virðing milli fólksins hér og það er stór ástæða þess að ég hef verið hér svona lengi.“
Nick
Þetta segir hann vera ástæðuna fyrir því að hann hafi starfað hér fram yfir sjötugt.
„Ég hef haft það of gott til að hætta. Það er ekki starfið sem heldur manni heldur fólkið.“
Ný áhugamál og óþrjótandi forvitni
Nick stefnir ekki að leggja tölvuna á hilluna þó hann sé að hætta á vinnumarkaði.
„Ég ætla að taka líkamsræktina fastari tökum, og kannski vonast til að grennast aðeins því maður verður ekki í svona góðum hádegismat lengur!“ segir hann hlæjandi.
Hann stefnir líka að því að rifja upp gamla takta í eðlisfræðinni. „Ég hef fundið námskeið og fyrirlestra sem eru frábærir, um afstæðiskenninguna og annað sem ég lærði fyrir löngu. Bróðir minn er eðlisfræðingur eins og ég og við ætlum að grúska í þessu saman. Hann er reyndar miklu klárari en ég svo þetta verður góð áskorun.“
Að auki ætlar hann að halda áfram að forrita heima fyrir. Næst á dagskrá er forritun á örtölvu sem fylgist með hitanum í húsinu og passar að það frjósi ekki í lögnunum. „Við ChatGPT erum í þessu verkefni saman,“ segir hann kíminn. „Ég þarf svo að tryggja að prófun á þessu og þjónustan verði góð!“
Takk Nick!
Nikulás lýkur spjallinu með ráði til þeirra sem eru að hefja sinn feril í tækniheiminum:
„Ekki hugsa um að hætta 67 ára bara af því að það stendur á blaðinu. Haltu áfram ef þú hefur gaman af því sem þú gerir. Það er lykillinn að því að verða hamingjusamur í vinnunni.“
Takk, kæri Nick fyrir 15 ár af ró, visku og hlýju. Við óskum þér alls hins besta í komandi ævintýrum.