alt missing

14/03/2023

Blogg

Lyfjavísir eykur öryggi lyfjameðferða

Lyfjavísir er lausn í Sögu sem einfaldar læknum og heilbrigðisstarfsfólki að skoða milliverkanir lyfja. Með því verður áhættustýring í lyfjameðferðum auðveldari og öryggi sjúklinga betur tryggt með því að minnka líkur á alvarlegum tilvikum vegna milliverkana.

Með Lyfjavísi er hægt að fletta lyfi upp í sjúkraskrá um leið og því er ávísað til að sjá hvort það hafi hættulegar milliverkanir við önnur lyf sem sjúklingurinn er þegar á. Mun fljótlegra ferli og aðgengilegra en að fletta upp lyfjum á erlendum vefsíðum eins og áður var raunin.

Svar við kalli lækna

Þróun á Lyfjavísi var komið af stað til að svara kalli lækna um forrit sem auðveldaði uppflettingar á milliverkunum, en samkvæmt rannsókn sem gerð var meðal lækna og birt í Læknablaðinu voru tæplega 80% aðspurðra þeirrar skoðunar að það vantaði milliverkunarforrit tengt sjúkraskrá. Í kjölfarið var ákveðið að fara í þróun á Lyfjavísi, sem tengist gagnagrunninum FEST í Noregi (Forskrivnings- og ekspedisjonsstøtte) sem dreift er af Lyfjastofnun til notkunar á Íslandi.

Læknir að störfum
Læknir að störfum

Tæplega 80% aðspurðra lækna voru þeirra skoðunar að það vantaði milliverkunarforrit tengt sjúkraskrá og þess vegna þróuðum við Lyfjavísi.

Hanna Rut Sigurjónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur og viðskiptastjóri, heilbrigðislausnir Origo

Aukið öryggi í takt við tímasparnað

Óþjált aðgengi að uppflettingum á milliverkunum auk skorts á tíma voru meðal þess sem torveldaði ákvörðun um lyfjaval að mati lækna sem tóku þátt í könnuninni. Þetta varð til þess að læknar gáfu sér ekki alltaf tíma til að fletta upp milliverkunum.  

Með því að einfalda uppflettingar á milliverkunum lyfja og stytta tímann sem uppflettingin tekur, er líklegt að fleiri læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk geti gefið sér tíma til þess. Þar með er öryggi við ávísun lyfja betur gætt og líklegt að alvarlegum tilvikum vegna milliverkana muni fækka.

Tækifærin innan heilbrigðistækni eru óteljandi

Hjá heilbrigðislausnum Origo starfa tæplega 70 sérfræðingar með sérþekkingu á sviði heilbrigðistækni sem vinna við þróun á notendavænum lausnum sem myndi sterkan grunn fyrir heilbrigðiskerfið í dag. Þróun Lyfjavísis er unnin í nánu samstarfi við lykilnotendur og vinnur heilbrigðissviðið með ýmsum heilbrigðisstengdum sprotafyrirtækjum.

Tækifærin innan heilbrigðistækni eru óteljandi og eru flest öll mjög brýn til að halda í við þá þjónustu sem einstaklingar þarfnast og krefjast. Það er hluti af vegferð okkar að efla þjónustu okkar og komast nær okkar viðskiptavinum.

Deildu gleðinni