
16/01/2025
Blogg
Nýtt í Sögu: Bætt yfirsýn og flýtiskráning styttir skráningartíma
Púlsinn fékk Magnús Má Steinþórsson, vörustjóra Sögu hjá Helix, til að taka saman helstu nýjungar í Sögu og segja okkur aðeins frá Lyfjavísi, lausn sem auðveldar uppflettingu á milliverkunum lyfja. Söguteymið okkar mun svo standa vaktina á Læknadögum sem eru nú framundan í Hörpu. Þau eru boðin og búin að taka spjallið og sýna meira frá eftirfarandi nýjungum sem allar eru til þess fallnar að stytta skráningu og bæta yfirsýn yfir sjúkrasögu sjúklinga.
Betri yfirsýn yfir sjúkragögn og fljótari skráning
Stærstu breytingar í nýrri útgáfu Sögu eru að nú verður hægt að opna Forsíðu sjúklings í aukaglugga. Þetta mun spara tíma, gefa betri yfirsýn og flýta fyrir skráningu í sjúkraskrá.
Þetta er fyrsta skrefið í að auðvelda heilbrigðisstarfsfólki að nálgast yfirlit yfir sjúkragögn sjúklings óháð stofnun með einföldum hætti og nýta sér þau til skráningar í sjúkraskrá. Með því að nýta aukagluggann í Sögu betur verður skráning í sjúkraskrá auðveldari þar sem hægt er að hafa yfirlit yfir og skoða eldri gögn sjúklings t.d. í Textasýn eða Forsíðu sjúklings meðan skráning í sjúkraskrá eða afgreiðsla vottorða fer fram.
Magnús Már Steinþórsson
Vörustjóri Sögu, Lyfjavaka og Lyfjavísis
Ýmsar aðrar breytingar má einnig nefna eins og skráningu keisaraaðgerða auk endurbóta í Mæðraskrá, Afgreiðslu og Lyfjavísi. Síðast en ekki síst eru að koma frá okkur fyrsta útgáfa valinna eyðublaða í vef með tengingu við Tal í texta virkni auk nýrrar útfærslu á flýtiskráningu í sjúkraskrá.
Meiri sjálfvirkni og flýtival í eyðublöðum
Við höfum verið að bæta við virkni í eyðublöðin í Sögu sem flýta fyrir skráningu, meðal annars með sniðmátum (mallar) sem hægt er að vista og kalla upp á einfaldan hátt og flýtiskráningarvirkni sem bætir aðgerðum, greiningum og flýtitexta sjálfkrafa inn í viðkomandi kóðasvæði. Hér má finna demo myndbönd sem sýna hvernig breytingarnar líta út í Sögu.
Sniðmát eyðublaða
Sniðmát með upplýsingum um samskipti og útfylltum eyðublöðum. Hægt er að kalla fram nafn eða kennitölu sjúklings í texta þannig að það sé sótt sjálfkrafa fyrir valinn sjúkling þegar sniðmát er notað til búa til samskipti.
Blöðin skila sér eins og þau eru vistuð, þ.e. með textum, kóðum og öðru sem er til staðar. Hægt er að fylla áfram í þau eftir að sniðmátið er notað, þ.e. bæta við texta eða kóðum sem eiga við sjúkling.
Flýtiskráning
Úr textasvæði í eyðublaði er hægt að kalla inn aðgerðaglugga til að velja greiningar, flýtitexta, aðgerðir og fleira. Þegar kóði er valinn fyllist sjálfkrafa inn í viðkomandi kóðasvæði og textinn kemur í svæðið sem unnið er úr. Í sumum tilfellum væri því hægt að skrá blað með því að vinna alfarið úr einu og sama svæðinu.
Hægt er að hreinsa textann sem kemur úr textasvæðinu ef fólk vill ekki hafa hann, valið situr áfram eftir í kóðuðu reitunum.
Sjálfgefið er að nýjasta val notanda komi í flýtivalmöguleikum þannig að fyrir sérfræðinga sem nota mikið sömu kóða þá verða þeir aðgengilegri.
Tal í texta
Öll lengri textasvæði í öllum blöðum geta stutt tal í texta ef það er virkjað hjá stofnun. Notandi getur tekið upp eins margar upptökur og þörf er á. Upptökur eru aðgengilegar áfram eftir staðfestingu blaðs.
Sjúklingur speglaður
Þegar sjúklingur er valinn í Sögu uppfærist valinn sjúklingur líka í eyðublöðum og til baka yfir í Sögu ef breytt er þar. Notandi getur þá haft vefinn opinn til hliðar við Sögu og unnið samhliða án þess að þurfa að uppfæra sjúkling í báðum lausnum.
Meira öryggi og árangur í lyfjameðferð með Lyfjavísi
Lyfjavísir er valkvæð virkni við Sögu sem gerir heilbrigðisstarfsfólki mögulegt að fá upplýsingar um milliverkanir lyfja með fljótlegum hætti og stuðlar þannig að meira öryggi og árangri í lyfjameðferð. Algengi fjöllyfjanotkunar jókst um nærri 38% á árunum 2010 – 2020 (10 tbl. Læknablaðsins 2023) og nýtt hugtak „ofurfjöllyfjameðferð“ (hyperpolypharmacy) er farin að skjóta upp kollinum í umræðunni.
Lyfjavísir sparar læknum tíma við lyfjayfirferð og greiningu vandamála
Mikil aukning í lyfjanotkun gerir læknum erfitt að greina möguleg vandamál tengd fjöllyfjameðferð en þar hjálpar Lyfjavísir til. Með tilkomu Miðlæga lyfjakortsins eru komnar ábyggilegar upplýsingar um raunverulega lyfjanotkun sjúklinga sem hjálpar læknum að framkvæma milliverkunarleit telji þeir ástæðu til áður en nýju lyfi er ávísað. Lyfjavísir er aðgengilegur innan úr Sögu og sækir upplýsingar lyf sjúklings í miðlægu lyfjakorti og framkvæmir strax milliverkunarleit byggða á gögnum úr norska lyfjagrunninum FEST (Forskrivnings- og ekspedisjonsstøtte). Lyfjavísir getur þannig sparað læknum tíma við lyfjayfirferð og greiningu vandamála hjá sjúklingum sem nota mörg lyf.

Höfundur bloggs
Elfa Ólafsdóttir
Forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Helix
Deildu gleðinni