
28/10/2025
Blogg
OpenEHR sem vegakerfi fyrir framtíðar heilbrigðistækni
Heilbrigðisgögn eru meðal mikilvægustu og viðkvæmustu gagna sem til eru. Þau endurspegla heilsu okkar, líðan og meðferðarsögu. Jafnframt mynda þau grunninn að betri þjónustu, rannsóknum og stefnumótun í heilbrigðiskerfinu. Það er því hagsmunamál fyrir alla þjóðina að þessi gögn séu varðveitt á öruggan, samhæfðan og aðgengilegan hátt.
Ég hef starfað í heilbrigðistæknigeiranum í Svíþjóð síðastliðin fimm ár. Þar eru það héruðin sem bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni og fjárfesta í sjúkraskrárkerfum í gegnum opinber útboð. Þegar slíkt kerfi hefur verið valið eru allir þjónustuaðilar, opinberir sem einkareknir, skuldbundnir til að nota það, ef hið opinbera tekur þátt í kostnaði þjónustunnar. Þetta fyrirkomulag þýðir að eitt stórt kerfi ræður yfir nær öllum markaðnum í hverju héraði.
Fyrir nýsköpunarfyrirtæki er þetta krefjandi umhverfi að starfa í. Þau sem sjá tækifæri til að leysa raunveruleg vandamál í heilbrigðiskerfinu komast oft ekki að vinnuflæðinu eða gögnunum. Ástæðan er einföld: fyrir sjúkraskrárkerfin er það hvorki forgangsverkefni né alltaf fjárhagslega hagkvæmt að opna fyrir tengingar við nýja aðila. Þannig getur nýsköpun stöðvast, þó hún gæti gagnast kerfinu í heild.
Fyrir heilbrigðisstarfsfólk og notendur er þetta ekki góð lausn. Fyrst og fremst vegna þess að stóru kerfin þurfa að leysa öll vandamál og höfða til mjög ólíkra starfsstétta og vinnuferla.
Þannig endum við með stór kerfi sem eru allt í lagi í mörgu, léleg í sumu en ekki frábær í neinu.
Þess vegna er ánægjulegt að sjá að heilbrigðisráðuneytið hyggst taka á þessum vanda með innleiðingu á OpenEHR og þannig vinna að sameiningu heilbrigðisgagna í miðlægan, opinberan grunn.
Þegar hið opinbera heldur utan um innviði gagna og byggir staðlað tengilag ofan á gögnin, er búið að skapa öflugt vistkerfi þar sem samkeppni og nýsköpun geta þrifist á jöfnum grundvelli.
Hlutverk hins opinbera er að leggja „vegakerfið“ fyrir heilbrigðistækni framtíðarinnar. Það gerir mismunandi fyrirtækjum kleift að hanna lausnir fyrir mismunandi sérsvið, auka skilvirkni og skapað hugvit. Með OpenEHR getum við skapað öflugt vistkerfi þar sem íslensk heilbrigðistækni verður ekki aðeins burðarás í innlendri þjónustu, heldur útflutningsgrein sem setur Ísland á kortið sem frumkvöðul í stafrænu heilbrigðiskerfi framtíðarinnar.

Höfundur bloggs
Einar Geirsson
Forstöðumaður nýsköpunar hjá Helix Health
Deildu gleðinni