alt missing

13/06/2024

Blogg

Samantekt af aðalfundi European Ageing Network

Áhyggjur af skorti á starfsfólki í umönnunarstörf og hvernig hægt er nýta tæknina til að bregðast við var aðalstefið á aðalfundi European Ageing Network sem haldin var í Tallinn í Eistlandi í lok maí.  Þar hélt ég kynningu um þann árangur sem við höfum náð við að umbylta störfum á hjúkrunarheimilum hér á landi með Iðunni smáforriti.  

En hvað er það sem áhyggjurnar snúast um? Það má brjóta vandann upp í þrjú megin stef: Vandamál við endurnýjun í hjúkrunarfræðistörf á hjúkrunarheimilum, tilfæringar verðmæts hjúkrunarfólks milli landa og áskoranir við innleiðingar tæknilausna á hjúkrunarheimili.  

Endurnýjun starfsstéttar hæg

Lítil endurnýjun er í hjúkrunarfræðistörf og fáir eru að skrá sig í námið.  Hugarfarsbreyting ungs fólks til umönnunarstarfa er þörf.  Á EAN var rætt um að unga fólkið sem er að velja sér framtíðarstarfsvettvang í dag horfir meira til þróunar í starfi en kynslóðir á undan hafa gert og þau eru ekki að sjá þá þróun eiga sér stað í starfi innan hjúkrunarheimila.  Auk þess hefur tæknin ekki rutt sér nægilega til rúms innan hjúkrunarheimila til að störfin höfði til yngra fólks. Hugarfarsbreyting til þessara starfa er góð og gild, en fjölgun aldraðra í samfélaginu er orðin það hröð að það þarf að bregðast við strax.   

Ójafnvægi mannauðar milli landa

Annar vandi sem var rauður þráður á EAN er flutningur umönnunarstarfsfólks milli landa og það á þá sérstaklega við um ríkari þjóðir innan Evrópu. Það er hægt að fá fólk frá öðrum löndum til að vinna í umönnun, en það má ekki vera í þeim mæli að viðkomandi land missi of stóran hluta umönnunarfólks síns og sitji svo sjálft í súpunni með vandann heimafyrir.   

Svo er það tæknin sem leysir ekki allan vanda, en með því að beita tæknilausnum rétt og vera fókuseruð þegar kemur að hönnun og virkni þeirra, má gera störf á hjúkrunarheimilum meira aðlaðandi og þannig minnka starfsmannaveltu og auka öryggi og samfellu í þjónustu.  

Innleiðing tæknilausna áskorun

Rökin fyrir aukinni stafvæðingu á hjúkrunarheimilum eru skýr og viljinn er svo sannarlega fyrir hendi, en af hverju gengur svona hægt að innleiða tæknilausnir?  Fyrir aðalfund EAN var gerð könnun meðal meðlima samtakanna sem samanstanda af fulltrúum stofnana og fyrirtækja í umönnunargeiranum sem þjónusta um milljón einstaklinga víðsvegar í Evrópu.  Í könnuninni var spurt af hverju gengi illa að innleiða nýjungar/tækni. Niðurstöðurnar voru í takt við þann vanda sem við sjáum hér heimafyrir, en 58% sögðu að vandamálið væri skortur á sýn (vision) og 25% nefndu skort á fjármagni.  

Iðunn smáforrit fyrir hjúkrunarheimili

Þau hjúkrunarheimili sem hafa innleitt Iðunni smáforrit hér á landi hafa fundið fyrir miklum breytingum á starfsemi, hagræðing á vinnuafli sem skilar sér í aukinni skráningu og þar af leiðandi auknu öryggi íbúa. Sjá má nánari samantekt á þeim áhrifum sem Iðunn hefur á störf hjúkrunarfræðinga hér. Ég kynnti Iðunni á aðalfundinum í Tallinn og fann strax fyrir miklum meðbyr meðal fundargesta og það er alveg klárt mál að íslenskt hugvit og reynsla á erindi á erlendan markað.  Við þurfum tæknina með okkur í lið til að tryggja nýliðun og ásókn í umönnunarstörf.  

Þórólfur Ingi Þórsson, Vörustjóri Helix

Höfundur bloggs

Þórólfur Ingi Þórsson

Vörustjóri hjá Helix

Deildu gleðinni