Erna Magnúsdóttir, framkvæmdastýra Ljóssins

25/03/2025

Blogg

Ljósið mælir árangur meðferða stafrænt

Ljósið, endurhæfingarmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein, er fyrsta endurhæfingarstofnunin á Íslandi til að innleiða WHODAS spurningalistann rafrænt fyrir ​​skjólstæðinga sína, en listinn er sendur út í gegnum Sögu sjúkraskrá. WHODAS er spurningalisti saminn af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni til að halda utan um breytilega líðan og færni á ákveðnu tímabili. Hann nýtist Ljósinu m.a. til að halda utan um breytingar og ​​framfarir skjólstæðinga, og greina þjónustuþörf. 

Auðvelt að fylgjast með breytingum og framförum

„Gert er ráð fyrir að öll sem koma til endurhæfingar í Ljósinu svari spurningalista áður en þau koma í þjónustu, síðan aftur eftir 3 mánuði og svo við útskrift,“ segir Erna Magnúsdóttir framkvæmdastýra Ljóssins. Listarnir eru sendir út í gegnum lausnina Vöku sem er virkni innan Sögu sjúkraskrá ætluð til að halda utan um hópameðferðir, fjarvöktun, senda skilaboð og spurningalista til skjólstæðinga heilbrigðisstofnana.  

WHODAS listinn hjálpar ekki bara starfsfólki Ljóssins að fylgjast með breytingum skjólstæðinga sinna​​ heldur geta skjólstæðingarnir sjálfir fylgst með þeim. Kjósi þeir að svara listanum reglulega í ferlinu, t.d. í byrjun hvers mánaðar, framkallast myndrænt graf sem sýnir breytingar og framfarir greinilega.  

Þverfaglegt matstæki með fjölbreytta notkunarmöguleika 

„Niðurstöðurnar eru nýttar til að meta þjónustuþörf, bera saman þarfir fólks til að meta þjónustuframboð, fylgjast með áhrifum læknisfræðilegs inngrips á færni og til að vega upp á móti færniskerðingu eins og kostur er. Sem og til að fylgjast með framförum og breytingum eftir því sem líður á endurhæfinguna.“  

Matstækið er þverfaglegt og getur nýst sem viðtalsrammi en einnig sem sjálfsmatskvarði og hefur því fjölbreytta notkunarmöguleika. Vonir standa til að notkun á matstækinu geti aukið skilvirkni í eftirfylgd og bætt mat á þjónustuþörfum.

Erna Magnúsdóttir

Framkvæmdastýra Ljóssins

Innan við árslangt undirbúningsferli

Ljósið innleiddi notkun á WHODAS í gegnum Sögu árið 2024 eftir innan við árslangt undirbúningsferli. „Við vorum búin að skima eftir þverfaglegu mælitæki sem væri á rafrænu formi, auðvelt í notkun fyrir skjólstæðinga og gæfi sýnilegar árangursmælingar fyrir fagfólkið,“ segir Erna.„Ákveðið var að vinna þetta verkefni með með Helix þar sem reynsla og þekking var þar til staðar og vegna þess að Ljósið var þegar með Sögu sjúkraskrá í notkun sem auðveldaði innleiðingu. Við þurftum að vera viss um að allar upplýsingar væru persónuvarðar og það er auðveldlega hægt í gegnum Sögukerfið, það var því tilvalið að vinna að þessu verkefnið með Helix.” Ljósið hlaut styrk úr Fléttunni árið 2023 til innleiðingar á matstækinu, en styrkjunum er úthlutað til verkefna sem styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðistækni, -vörum og -þjónustu.

Ljósið hlaut styrk til fyrir innleiðingu á WHODAS haustið 2023
Ljósið hlaut styrk til fyrir innleiðingu á WHODAS haustið 2023

Upplýsingar aðgengilegar á einum stað

Einn af stærstu kostum þess að nota Vökuvirknina í Sögu að mati Ernu er að allar upplýsingar sem verða til í gegnum lausnina er að finna á yfirliti einstaklings. Þar er hægt að sjá tímalínu (t.d. ef áminning hefur verið send), skilaboðasögu og hvaða fræðsluefni hefur verið sent. Í yfirlitinu er einnig að finna WHODAS spurningalistann, svör, graf og sendingarvalmöguleika, allt á einum stað.  

Fyrstu skrefin í safnaðarheimili ​​en starfið tekið stakkaskiptum síðan 

Ljósið hefur stækkað og breyst gífurlega síðan starfsemin hófst í safnaðarheimili Neskirkju árið 2005, þá tvo eftirmiðdaga í viku. Erna, sem er iðjuþjálfi að mennt og með M.Sc. gráðu í stjórnun, hefur verið hluti af Ljósinu frá byrjun en fyrsta haustið var öll hennar vinna unnin í sjálfboðaliðastarfi til að hrinda verkefninu af stað. Það var skoðun hennar og annarra sem stóðu að stofnun Ljóssins að þörf væri fyrir endurhæfingarmiðstöð utan veggja spítala. Þau tóku til höndum og úr varð Ljósið sem hefur frá fyrsta febrúar 2006 staðið fyrir fullri starfsemi allan daginn, alla virka daga. 

 „Þegar fólk gengur í gegnum ferli krabbameinsmeðferðar minnkar orkan og oft dregur úr frumkvæði. Sumir hætta að vinna tímabundið og aðrir alfarið vegna afleiðinga veikindanna. Í Ljósinu býðst fólki bæði stuðningur og sérhæfð, einstaklingsmiðuð endurhæfing sem þverfaglegt teymi sérfræðinga stendur að baki. Markmiðið er að byggja upp andlegt, líkamlegt og félagslegt þrek og þar með efla lífsgæði bæði hins krabbameinsgreinda og aðstandenda.“