Gunna Sigga, þjónustusérfræðingur hjá Helix

21/10/2024

Blogg

Styttri skráningartími með betri þekkingu á Sögu

Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir, betur þekkt sem Gunna Sigga, starfar í þjónustu við viðskiptavini Helix og sér m.a. um örnámskeið ætluð heilbrigðisstarfsfólki. Á námskeiðunum eru kenndar fljótlegustu leiðir til skráninga í Sögu sjúkraskrá sem stytta tímann sem fer í skráningarnar.

„Okkur í þjónustunni hjá Helix grunaði að notendur nýttu kerfi á borð við Sögu sjúkraskrá ekki eins vel og kostur var á vegna þess að þau kynnu mögulega ekki nógu vel á þau. Við ákváðum að búa til örnámskeið þar sem við kennum fólki flýtileiðir og trix svo kerfin gagnist sem best í starfi.

Við trúum því að með betri þekkingu á kerfunum fækki vandamálum, þörf fyrir aðstoð minnki og ánægja notenda aukist!

Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir

Þjónustusérfræðingur hjá Helix

Styttir skráningartíma

Það er mikilvægt að stytta tímann sem fer í skráningu hjá hópi með jafn þéttan vinnudag og ríka skráningarskyldu og heilbrigðisstarfsfólk, en til að mynda getur tölvuvinna hjúkrunarfræðinga tekið 50-75% af vaktinni. Með því að auðvelda og flýta fyrir skráningum er hægt að létta talsvert undir með þeim í starfi. 

Endurgjöf námskeiðstaka notuð til að bæta kerfið

Helix hefur boðið upp á námskeiðin síðan í vor, alls hafa verið haldin 12 námskeið sem um 800 manns starfandi innan heilbrigðiskerfisins hafa sótt. „Það kom okkur verulega á óvart hversu mikill áhugi var á örnámskeiðunum og það var frábært að sjá hvað notendur eru ánægðir með þau.

Við sjáum það á ánægjukönnun sem við sendum út eftir námskeiðin og á umræðunum sem myndast eftir þau. Þar fáum við meðal annars spurningar og endurgjöf frá notendum um hvað má bæta og tökum það til greina við áframhaldandi þróun kerfanna.

Guðrún Sigríður Jóhannesdóttir

Þjónustusérfræðingur hjá Helix

Námskeiðin eru hönnuð út frá mismunandi starfshópum innan heilbrigðiskerfisins svo þau sem sækja námskeiðin fá kennslu sem miðar að þeirra þörfum í starfi. Í kjölfarið eru upptökur af námskeiðunum gerðar aðgengilegar á heimasíðu Helix.

Þakklætið það besta

„Viðskiptavinirnir og þakklætið frá þeim er það allra mest gefandi við starfið,“ segir Gunna Sigga. „Okkar viðskiptavinir eru heilbrigðisstarfsfólk sem eru mjög upptekinn hópur. Þegar þau gefa sér tíma til að hrósa verð ég svo ánægð með vinnuna, það gerir daginn svo miklu betri. Einnig eru samstarfsfélagarnir, og í raun allt vinnuumhverfið, frábært. Ég hef hvergi unnið á eins góðum vinnustað og Helix.“

Frá kennslu yfir í tækni

Leið Gunnu Siggu lá ekki beint að tækninni, hún tók fyrst krókaleið í gegnum skólakerfið. „Ég er fædd og uppalin í Keflavík en hef búið í Hafnarfirði síðastliðin 4 ár og mér líkar afar vel að búa þar. Ég er menntaður kennari og með meistaragráðu í upplýsingatækni og aðra í skólastjórnun en hef alfarið unnið við upplýsingatækni frá því ég lauk námi. Ég hef unnið hjá Helix frá stofnun og finnst það æðislega gaman. Starfsandinn er góður, samvinnan frábær og hver dagur býður upp á nýjar áskoranir!“

Besti kosturinn og mesta áskorunin

Að mati Gunnu Siggu er fjölbreytileiki starfsins bæði helsti kosturinn og mesta áskorunin. „Það þarf að halda mörgum boltum á lofti, að missa hvorki einbeitinguna né þjónustulundina. Suma daga logar síminn og þjónustuborðið fyllist af málum, á sama tíma er ég að skrifa leiðbeiningar fyrir kerfið, funda með viðskiptavinum og aðstoða forritara, en það er mjög gefandi og aldrei leiðinlegt.“

Hvetur heilbrigðisstarfsfólks til að fylgjast með

„Ég vil hvetja heilbrigðisstarfsfólk til að fylgjast með auglýsingum frá okkur á samfélagsmiðlum og frá sínum kerfisstjórum um þau námskeið sem eru í boði út þetta ár og einnig nýja námskeiðaröð sem verður auglýst í upphafi næsta árs. Ég vil líka minna á að hægt er að nálgast upptökur af öllum námskeiðunum á vef Helix og hægt er að nýta þessi námskeið til þess t.d. að kenna nýjum notendum á kerfin okkar.“