alt missing

20/12/2024

Blogg

Tæknilausnir minnka álag og auka öryggi á hjúkrunarheimilum 

Stafrænar tæknilausnir geta aukið skilvirkni, minnkað álag og bætt öryggi á íslenskum hjúkrunarheimilum. Takmarkaður tími stjórnenda og álag á starfsfólki getur gert innleiðingu nýrra tæknilausna erfiða og nauðsynlegt sé að fjárfesta og hlúa að innleiðingarferlinu. Þetta kemur fram í meistaraverkefni Hennýjar Bjarkar Birgisdóttur í stafrænni heilbrigðistækni hjá Háskólanum í Reykjavík.  

  

Áhrif tveggja hugbúnaðarlausna skoðaðar 

Í rannsókninni kemur fram að eftir því sem þjóðin eldist þá eykst álagið hjúkrunarheimilum og nauðsynlegt sé að nýta tæknilausnir til að styðja við starfsfólkið og bregðast við mönnunarvanda. Í lokaverkefninu rannsakaði Henný Björk áhrif innleiðingar hugbúnaðarlausnanna Iðunni og Lyfjavaka sem þróaðar eru af Helix, á starfsemi fjögurra hjúkrunarheimila. 

Iðunn er smáforrit þar sem verkþættir eru skráðir og vistaðir í sjúkraskrá íbúa í rauntíma. Skv. lögum ber heilbrigðisstarfsfólki hjúkrunarheimila skylda að skrá hvern einasta verkþátt í sjúkraskrá og staðan á mörgum hjúkrunarheimilum er slík að hjúkrunarfræðingar eyða um 25% vaktanna fyrir framan tölvu að sinna skráningum. Markmiðið með smáforritinu Iðunni er að einfalda lögbundnar skráningar og færa þær á hendur fleira starfsfólks og búa þannig til rými fyrir hjúkrunarfræðinga að sinna meiri faglegri færni.  

Lyfjavaki er rafrænt lyfjaskráningarkerfi sem gerir hjúkrunarfræðingum kleift að halda utan um skráningar á lyfjatiltekt og lyfjagjöfum íbúa. Jafnframt er notast við smáforrit til að staðfesta lyfjagjafir. Með notkun Lyfjavaka er tryggt að rekjanleiki lyfjagjafa sé í samræmi við þær kröfur sem gilda um slíka skráningu. Dæmi eru um hjúkrunarheimili sem notast enn við pappír til að skrá lyfjagjafir.  

  

Skráningartími minnkaði um 67% 

Með tilkomu Iðunnar minnkaði tíminn sem fór í skráningarvinnu um 26 mínútur á hverri vakt hjá hverjum hjúkrunarfræðingi, en það er 67% minni skráningartími að meðaltali en hjá þeim hjúkrunarheimilum sem eru ekki með lausnina. Niðurstöður bentu einnig til þess að með lægra heildarskráningarálag hjúkrunarfræðinga þá nýttist tíminn betur í aðhlynningu og samveru með íbúum.   

Innleiðing á Lyfjavaka hafði ekki marktækan tímasparnað í för með sér en það var samhljómur um að lausnin hefði í för með sér aukið öryggi, fyrir bæði starfsfólk og íbúa og bætta yfirsýn í lyfjagjöfum. Þátttakendur í rannsókninni töluðu um að mistök séu líklegri með því að notast við skráningar á pappír. Hugbúnaðurinn hefur ýmsar birtingarmyndir á stöðu lyfja sem sýna m.a. ef eitthvað er afbrigðilegt og lætur starfsfólk þannig vita.  

Þrátt fyrir jákvæðan ábata af þessum hugbúnaðarlausnum þá reyndist innleiðing þeirra áskorun fyrir sum hjúkrunarheimili. Tímaskortur hjá stjórnendum og starfsfólki og erfiðleikar við að tileinka sér breytt vinnulag eru dæmi um þætti sem eru nefndir í rannsókninni. Nauðsynlegt er að fjármagn fylgi heilbrigðistæknilausnum til að styðja betur við innleiðingar. 

Deildu gleðinni