
15/07/2024
Blogg
Innsýn í heilbrigðiskerfið nýtist í þróun stafrænna lausna
Þorbjörg Þórhildur Snorradóttir vörustjóri heilbrigðislausnarinnar Vöku, tvinnar reynslu sína úr heilbrigðisgeiranum saman við gráðu í tölvunarfræði í starfi sínu. Hún er menntaður hjúkrunarfræðingur með fjölbreytta reynslu m.a. af umönnun aldraðra og af krabbameinsdeild.
„Reynslan mín sem hjúkrunarfræðingur hefur verið mér ómetanleg í þessu starfi. Ég hef góða innsýn inn í vinnu heilbrigðisstarfsfólks og á auðvelt með að setja mig í spor notenda, skilja þarfir þeirra og hvernig lausnir Helix koma til móts við þær.“
Þorbjörg
Hvað er Vaka?
Vaka er samskiptagátt fyrir skjólstæðinga og meðferðaraðila innan heilbrigðiskerfisins sem auðveldar eftirfylgni og stuðning. Þar geta meðferðaraðilar sent skjólstæðingum fræðsluefni, spurningalista og sent og tekið á móti skilaboðum. Vaka býður meðferðaraðilum upp á góða yfirsýn. Þar geta þeir séð yfirlit yfir sína skjólstæðinga, séð hvort og hvenær þeir hafa svarað spurningalistum, síað listann eftir ábyrgum læknum/hjúkrunarfræðingum og fleira. Einnig er hægt að láta lausnina senda áminningar varðandi meðferð eða um að hafa þurfi samband við skjólstæðinginn.
Einstaklingar með langvinna sjúkdóma og fólk yfir 67 ára aldri telja stóran hluta skjólstæðinga heilbrigðiskerfisins. Fjölgað hefur í báðum hópum undanfarin ár og ekkert lát er á þeirri þróun, sem leiðir til aukins álags á heilbrigðiskerfið. Þessir einstaklingar eru líklegir til að þurfa að hafa regluleg samskipti við heilbrigðisstarfsfólk. Með því að einfalda samskiptin með fjarheilbrigðislausnum og spara þannig tíma bæði skjólstæðinga og heilbrigðisstarfsfólks verður auðveldara að mæta vaxandi þjónustuþörf.
Oft þörf á stærra inngripi ef samskiptin eru minni
„Ég hef séð sjúklinga draga það að leita eftir aðstoð til að „trufla ekki“. Þegar þau þola ekki lengur við er vandinn orðinn svo slæmur að það þarf stærra inngrip til að ná bata. Með aðstoð Vöku geta skjólstæðingar átt samskipti við sinn meðferðaraðila í gegnum Heilsuveru og fengið úrlausn á vandamálum snemma í ferlinu. Það getur komið í veg fyrir versnun einkenna og minnkað líkur á að leita þurfi aðstoðar á heilbrigðisstofnun og mögulega komið í veg fyrir innlögn á sjúkrahús. Þarna er hagnaður bæði fyrir ríkið og skjólstæðinginn.“ segir Þorbjörg.
Áætlaður kostnaður við innlögn skjólstæðings á Bráðamóttökuna í Fossvogi er 209.750 krónur á sólarhring. Með því að fækka innlögnum sparast ekki bara töluvert fjármagn heldur minnkar álag á bráðamóttökuna og starfsfólk hennar.
„Með því að koma í veg fyrir innlögn sparast peningur, styttri meðferð þýðir minni vinna fyrir heilbrigðisstarfsfólk og minni vanlíðan fyrir skjólstæðinginn, auk þess er sparnaður fólgin í því fyrir ríkið að hann komist sem fyrst aftur til vinnu sé hann í þeirri stöðu.“
Þorbjörg
Tímasparnaður fyrir skjólstæðinga og heilbrigðisstarfsfólk
„Vaka gagnast einnig skjólstæðingum í skammtímaúrræðum,“ segir Þorbjörg. „Með því að svara spurningarlistum og lesa fræðsluefni fyrirfram er hægt að stytta tímann sem skjólstæðingur þarf að vera í umsjón meðferðaraðila. Þannig er möguleiki að stytta biðlista sem eru þrálátt vandamál vaxtaverkja og manneklu í heilbrigðiskerfinu.“
Auðeldari eftirfylgni
Eftirfylgni er mikilvægur þáttur í þjónustu heilbrigðiskerfisins. Hjá skjólstæðingum sem hafa gengist undir skurðaðgerðir eykur reglulegt eftirlit líkur á því að hægt sé að bregðast hratt við mögulegum fylgikvillum í kjölfar aðgerðar. Það sama má segja um þá sem eru í bata eftir krabbamein, brýnt er að grípa fljótt inn í ef það tekur sig upp aftur. Rannsóknir hafa sýnt að notkun fjarheilbrigðislausna í eftirfylgni eykur líkur á að heilbrigðisstarfsfólk verði vart við einkenni sem kalla á frekari skoðun. Skjólstæðingar átta sig ekki alltaf á því hvaða einkenni eru alvarleg og leita þá ekki eftir aðstoð. Með því að gera heilbrigðisstarfsfólki kleift að fylgjast með einkennum og framvindu getur það komið auga á mögulegar hættur og brugðist við.
Í takt við heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar
Á síðustu misserum hefur ríkisstjórnin aukið stuðningsúrræði sem bæta möguleika fólks til að búa heima þrátt fyrir veikindi og skerta getu, lausnir eins og Vaka auðvelda það enn frekar. Hluti af heilbrigðisstefnu ríkisstjórnarinnar til ársins 2030 horfir til aukinnar notkunnar stafrænna lausna í fjarheilbrigðisþjónustu. Ekki bara til að auðvelda notendum að vera heima fyrir þrátt fyrir veikindi, heldur til að bæta heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Aukin fjarheilbrigðisþjónusta getur fækkað ferðum skjólstæðinga á sjúkrastofnanir, sem oft geta verið langar og erfiðar, og stytt tíma í umsjón meðferðaraðila og þar með fjarveru skjólstæðinga frá eigin heimili.
Árið 2018 var gefin út skýrsla um tæknivæðingu innan opinbera geirans í Svíþjóð (McKinsey 2018). Þar segir að Sænska ríkið geti sparað allt að 180 milljarða sænskra króna á ári til ársins 2025 innan heilbrigðiskerfisins ef gripið er til aðgerða og tæknivæðingin tekin föstum tökum.