
27/08/2025
Viðburður
Betri bati með tæknilausnum
Samspil heilsutækni og endurhæfingar
27/08/25
16:00
Vox Club | Hilton Nordica Hotel
Helix býður til haustviðburðar þar sem sérfræðingar og fagfólk úr ýmsum áttum innan heilbrigðis- og tæknigeirans ræðir um hlutverk heilbrigðistækni í að bæta endurhæfingu, stuðla að betri bata og nýjum lausnum við áskorunum framtíðarinnar. Fjallað verður m.a. um stafræn meðferðarúrræði, betri nýtingu gagna, ný tækifæri í gagnaöflun í rauntíma, möguleika í rafrænum samskiptum við sjúklinga og margt fleira.
Fundarstjórn er í höndum Ingvars Hjálmarssonar.
Skráning er nauðsynleg | Húsið opnar kl. 15:30
Ath. að gengið er inn um sér inngang Vox Club til hægri við aðalinngang á Hilton Nordica Hotel.
Hlökkum til að sjá þig!
Dagskrá
Betri bati með tæknilausnum
KL 16:00
Dagskrá hefst
Fundarstjóri | Ingvar Hjálmarsson
KL 16:15
Rannsóknir á árangri endurhæfingar: Mælingar, tækni, tækifæri og áskoranir tengdar öldrun
Í erindinu verður fjallað um rannsóknir á árangri endurhæfingar með áherslu á staðlaðar mælingar á færni. Horft verður til nýrra tækifæra til gagnaöflunar í raunaðstæðum og rauntíma með tækni, bæði í endurhæfingarstarfi og formlegum rannsóknum. Loks verða tekin dæmi um áskoranir við notkun slíkrar tækni hjá eldra fólki.
Sólveig Ása Árnadóttir
KL 16:30
Bætt aðgengi að upplýsingum með breyttri skráningu, fyrir sjúklinga og starfsfólk.
Reykjalundur hefur farið í gegnum stafrænar breytingar sl ár. Markmið breytinganna var að finna leið fyrir örugg rafræn samskipti fyrir sjúklinga, veita upplýsingar um heilsu og áhrifaþætti í endurhæfingarmeðferð og gera sjúklingum kleift að hafa betri yfirsýn yfir samskipti við meðferðaraðila, framgang meðferðar og yfirsýn yfir eigin meðferð á Reykjalundi. Breytingar nýtast sjúklingum en ekki síður starfsfólki.
Ólöf Árnadóttir
KL 16:45
Getur app verið endurhæfing?
Sidekick Health þróar stafræn meðferðarúrræði (e. digital therapeutics, DTx) fyrir ýmsa sjúklingahópa. Markmið DTx er að hafa klínísk áhrif á heilsu, líðan og lífsgæði sjúklinga með fjölþættri íhlutun sem felur í sér fræðslu, stuðning við lífsstílsbreytingar, eflingu meðferðarheldni og aðstoð við að takast á við einkenni og aukaverkanir. Í þessum fyrirlestri er fjallað um nálgun Sidekick Health á DTx fyrir fólk í endurhæfingu eftir krabbameinsgreiningu.
G. Haukur Guðmundsson
KL 17:00
Endurhæfingarferli á mynd: WHODAS í Ljósinu
Ljósið, endurhæfingarmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein, er fyrsta endurhæfingarstofnunin á Íslandi til að innleiða WHODAS spurningalistann rafrænt fyrir skjólstæðinga sína, en listinn er sendur út í gegnum Sögu sjúkraskrá. WHODAS er spurningalisti saminn af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni til að halda utan um breytilega líðan og færni á ákveðnu tímabili. Hann nýtist Ljósinu m.a. til að halda utan um breytingar og framfarir skjólstæðinga og greina þjónustuþörf.
Valgý Arna Eiríksdóttir
KL 17:15
Bati: Nýsköpun í áfengis- og vímuvörnum
Fjallað verður um vegferð smáforritsins Bata. Upphaflegt markmið var að takast á við vandamál sem löng bið eftir dvöl á sjúkahúsinu Vogi leiðir af sér, en úr varð smáforrit sem styður við fólk með fíknisjúkdóm í framhaldsmeðferð að lokinni innlögn. Einnig verður fjallað um mikilvægi notendaprófana og tækifæri til nýsköpunar í áfengis- og vímuvörnum.
Þórdís Rögn Jónsdóttir
KL 17:30
Panelumræður með fyrirlesurum
Veitingar og spjall

Sólveig Ása Árnadóttir
Prófessor og sjúkraþjálfari
Sólveig er prófessor og formaður námsbrautar í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands. Helstu kennsluverkefni snúa að stöðluðum mælingum á færni og fötlun, öldrunarfræði og öldrunarsjúkraþjálfun. Áherslur í rannsóknum beinast að öldrun, líkamlegri færni, hreyfingu, byltuvörnum, heilsu í dreifðari byggðum, próffræði matstækja og ICF - Alþjóðlegu flokkunarkerfi um færni, fötlun og heilsu. Menntun: BS í sjúkraþjálfun 1991, Háskóli Íslands; MS í hreyfivísindum 1998, USA; PhD í sjúkraþjálfun 2010, Svíþjóð.

Ólöf Árnadóttir
Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Reykjalundi
Ólöf er menntuð hjúkrunarfræðingur og einnig MS gráðu í stjórnun í heilbrigðisþjónustu. Hún hefur víðtæka starfsreynslu af störfum sínum á Norðurlöndum og hér heima og langa reynslu af hjúkrunarstjórnun, aðallega frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem hún starfaði sl ár áður en hún hóf störf hjá Reykjalundi. Ólöf hefur í störfum sínum öðlast mikla reynslu af þverfaglegri samvinnu heilbrigðisstétta, innleiðingu nýrra kerfa, nýtingu mannauðs, endurskipulagningu eininga og daglegri stjórnun hjúkrunar. Hún hefur jafnframt yfirgripsmikla klíníska reynslu sem hjúkrunarfræðingur og lagt rækt við þau tengsl samhliða stjórnunarstörfum, bæði hérlendis og erlendis.

G. Haukur Guðmundsson
Clinical Lead hjá Sidekick Health
Haukur er sjúkraþjálfari með meistaragráðu í íþrótta- og heilsufræði. Hann hefur sérhæft sig í þjálfun og endurhæfingu krabbameinsgreindra og starfaði í yfir áratug hjá Ljósinu. Hann er nú ábyrgur fyrir klínísku efni hjá Sidekick Health og starfar við að þróa stafræn meðferðarúrræði fyrir fólk með krabbamein sem og aðra sjúkdóma og kvilla. Tilgangur Sidekick er að valdefla fólk til að taka virkan þátt í heilsu sinni með bættum lífsstíl og leiðum til að tækla þau vandamál sem sjúkdómar og meðferð geta haft í för með sér.

Valgý Arna Eiríksdóttir
Iðjuþjálfi hjá Ljósinu endurhæfingu
Valgý útskrifaðist úr iðjuþjálfun frá HA 2011 og er með diplomu í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun. Hún hefur starfað á fjölbreyttum sviðum endurhæfingar m.a. á Grensás, Búsetudeild Akureyrarbæjar, endurhæfingardeild Eirar og hjá Reykjavíkurborg, sem teymisstjóri yfir endurhæfingu í heimahúsi. Þar kynntist hún fyrst Whodas mælitækinu, á pappírsformi. Hún hefur verið hjá Ljósinu í yfir ár og séð um innleiðingu á Whodas mælitækni í rafrænu formi.

Þórdís Rögn Jónsdóttir
Stofnandi Rekovy
Þórdís Rögn Jónsdóttir er einn stofnenda Rekovy, fyrirtækisins á bak við Bata sem er eina íslenska smáforritið sem styður við einstaklinga með fíknisjúkdóm. Hún hefur yfir fimm ára reynslu í þróun stafrænna meðferða (DTx) fyrir ýmsa sjúkdóma og starfaði áður hjá Sidekick Health, þar sem hún leiddi þróun DTx vara í samstarfi við alþjóðleg lyfja- og tryggingafyrirtæki, m.a. fyrir Pfizer, Eli Lilly og Elevance Health. Hún leiddi einnig þróun lyfseðilsskyldrar stafrænnar meðferðar (PDTx) fyrir þýska markaðinn. Þórdís er með BSc í iðnaðarverkfræði, stundar meistaranám í rekstrarverkfræði og brennur fyrir nýsköpun í heilbrigðiskerfinu.

Ingvar Hjálmarsson
Framkvæmdastjóri og formaður Hugverkaráðs Samtaka iðnaðarins
Ingvar Hjálmarsson er framkvæmdastjóri, ráðgjafi og fyrirlesari með yfir 15 ára reynslu í heilsutækni. Ingvar hefur sérhæft sig í stefnumarkandi umbreytingum og vexti fyrirtækja. Sem fyrrverandi framkvæmdastjóri Nox Medical leiddi hann alþjóðleg teymi sem skiluðu heilsulausnum sem hafa haft áhrif á milljónir manna um allan heim. Ingvar situr í stjórnum nokkurra fyrirtækja og hópa sem horfa til umbreytinga og virðissköpunar.