
06/03/2025
Blogg
Saga Sögu: Innviður í íslensku heilbrigðiskerfi
Hvernig hefur Saga sjúkraskrá byggst upp og af hverju eru tæknilegir innviðir heilbrigðiskerfisins eins og þeir eru í dag? Gunnar Ingi Widnes Friðriksson (Giffi) hefur starfað við heilbrigðistækni í um þrjá áratugi. Allt frá því að vera kerfisstjóri á heilbrigðisstofnun um aldamótin yfir í að vinna með Alþjóðlegu Heilbrigðisstofnuninni (WHO) við gerð rafrænna bólusetningarvottorða á Covid tímum. Hann er fremsti tæknisérfræðingurinn í innviðunum Sögu sjúkraskrá og Heklu heilbrigðisneti og hefur verið starfandi tæknistjóri hjá Helix síðan 2023. Giffi hélt fyrirlestur á heilbrigðisráðstefnu Ský á dögunum þar sem hann fór yfir rekstraröryggi innviða í heilbrigðiskerfinu.

Saga keyrð úr kústaskápum víða um land
Þróun Sögu sjúkraskrár fór fyrst af stað um aldamótin þar sem flytja átti skráningu á pappír yfir í stafrænt form. Fyrstu heilbrigðisstofnanir tóku Sögu í notkun í kringum 1997 þegar almennir tæknilegir innviðir á Íslandi voru stutt á veg komnir.
,,Þegar ég starfaði sem kerfisstjóri hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands um aldamótin var Saga uppsett á heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum víða um land. Það er, hún var rekin á hverri stöð fyrir sig.” segir Giffi. Hann heldur áfram ,,Stofnanir voru byggðar fyrir tíma stafvæðingar í heilbrigðiskerfinu og eftir að Saga var innleidd voru heilbrigðisgagnasöfnin, eða grunnarnir, oft bara geymdir í geymslum eða kústaskápum. Þetta var vegna þess að á þeim tíma voru netinnviðir ekki góðir og ekki var hægt að treysta á traust netsamband á milli staða”
Ekki er lengra síðan að stofnanir treystu fyrst og fremst á samskipti sem fóru almennt fram í gegnum bréfasendingar og faxtæki. ,,Þegar ég var kerfisstjóri var ég til dæmis mjög mikið í því að laga prentara svo lyfseðlablöðin myndu passa rétt, taka afrit af spólum og fara með í bankahólf.”
Samtengt heilbrigðiskerfi verður til
Árið 2007 breyttist tæknilega umhverfið innan heilbrigðiskerfisins mikið þegar ný tækni var innleidd, Hekla heilbrigðisnet. Hekla er einfalt net sem tengir ólíka aðila í heilbrigðiskerfinu saman og getur miðlað gögnum þeirra á milli og er í dag einn mikilvægasti tæknilegi innviðurinn í íslensku heilbrigðiskerfi. ,,Hekla var þróuð með það að markmiði að halda nýþróun áfram og auðvelda sendingar á gögnum svo sem rafræna lyfseðla, bólusetningar og fleira” útskýrir Giffi.
Þetta voru á þeim tíma stór skref á Íslandi. Á meðan heimurinn var enn að vinna að innleiðingu rafrænna sjúkraskráa var Ísland að samtengja sína sjúkraskrá til að bæta heilbrigðisþjónustuna og auðvelda störf heilbrigðisstarfsmanna.
Enn voru þó áskoranir í umhverfinu; kerfin voru áfram frekar einangruð, rekstur ólíkur á milli stofnana og netsamband óstöðugt, þá sérstaklega um sveitir landsins.
Öruggara að hafa mikilvæga tæknilega innviði á Íslandi
,,Í dag hafa netinnviðir á Íslandi batnað mjög mikið sem hefur gefið okkur tækifæri til að fækka Sögugrunnum, eða með öðrum orðum, að sameina heilbrigðisgagnasöfn. Það gerir það að verkum að reksturinn verður öruggari og betri því heilt yfir eru staðlaðri vinnubrögð í rekstri grunnanna og sérþekkingin á þeim meiri." Giffi heldur áfram: ,,Samþætting er orðin mikil í heilbrigðiskerfinu og má þar nefna auk Heklu, rafræn læknabréf, samtengingar og miðlægir grunnar hjá embætti landlæknis. Þar eru heilbrigðisgögnum safnað og unnar úr þeim skýrslur ásamt miðlun upplýsinga.” Í dag er umfang Heklu mikið. Það fara nokkur milljón skeyti um Heklu á hverjum degi og það eru um 170 mismunandi aðilar tengdir inn á netið, bæði heilbrigðisþjónusta en einnig aðrir aðilar sem þurfa gögn úr heilbrigðiskerfinu líkt og sýslumenn, sjúkratryggingar og fleira. ,,Þetta er mjög stór og mikilvægur innviður sem nær utan um allt sem við erum að gera í heilbrigðiskerfinu. Allt er þetta hýst á Íslandi, ekkert af þessu er með neinar tengingar við erlend kerfi nema undirritun skjala og rafræn auðkenning með rafrænum skilríkjum."
Á síðustu misserum hefur verið umræða um hvað gerist ef sæstrengir rofna og vegna þess að mikilvægir innviðir eru hýstir hér á landi þá erum við öruggari hvað það varðar.
Giffi
Tæknistjóri Helix
Helstu áskoranirnar í dag
,,Innviðirnir eru alltaf að verða betri, netið er alltaf að verða betra og það gefur okkur tækifæri til að fækka grunnum og stækka þá. En með þeim breytingum fylgja nýjar og ólíkar áskoranir. Þegar grunnum er fækkað og þeir sameinaðir verður öryggisflöturinn stærri og þar af leiðandi meira aðlaðandi fyrir til dæmis hakkara.“ Gríðarlega mikilvægt sé að huga vel að öryggi þessara innviða.
,,Sem tæknistjóri hjá Helix er það mér gríðarlega mikilvægt að Saga sé góður og öruggur grunninnviður í íslensku heilbrigðiskerfi og að hún sé tiltækileg á Íslandi. Það er að mörgu að huga þar, til dæmis er mjög mikilvægt að velja ekki tækni sem byggir á tækni annarra landa eða einstaklinga.” Hann bætir við að mikil vitundarvakning sé á alþjóðavettvangi hjá aðilum eins og Ursulu Von Der Leyen, forseta framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins og Macron Frakklandsforseta um þessi mál vegna þeirra sviptinga sem við erum að sjá í alþjóðastjórnmálum.
Heilbrigðisgögn eru okkar dýrmætustu gögn og því er nauðsynlegt að allar ákvarðanir séu vel ígrundaðar og að horft sé til allra þátta þegar tækni er valin fyrir grunninnviði landsins.
Giffi
Tæknistjóri Helix
Saga er stökkpallur nýsköpunar
Giffi telur tækifærin sem búa í heilbrigðistækni vera gríðarlega mikilvæg og að Saga geti verið stökkpallur nýsköpunar. ,,Ég er mjög spenntur fyrir því að nýta Sögu enn betur til að efla nýsköpun í heilbrigðistækni á Íslandi og styðja þannig við bæði nýsköpunarfyrirtæki og heilbrigðiskerfið sjálft. Það eru nú þegar fjöldi öflugra aðila að þróa til lausnir sem tengjast beint inn í Sögu. Má þar nefna mjög spennandi gervigreindarlausnir og fleira sem munu birtast í Sögu. Ég sé fjölmörg tækifæri í því að Saga geti verið stökkpallur fyrir nýsköpun og við erum nú þegar með ýmis fordæmi fyrir því. Það er samt líka mikilvægt að taka það fram að við þurfum alltaf að huga að öryggi og tiltækileika gagnanna í þessari þróun."

Höfundur bloggs
Elfa Ólafsdóttir
Markaðsstjóri Helix
Deildu gleðinni